Fyrsti laugardagsfundur HEILAHEILLA á þessu starfstímabili var 7. september með, beintengingu í gegnum samskiptaforritið ZOOM. Nokkuð margir tengdust fundinum, m.a. frá Akureyri og víðar. Formaðurinn, Þórir Steingrímsson, bauð Þórunni Hönnu Halldórsdóttur, fv. formanni Félags talmeinafræðinga á Íslandi, fv. yfirmaður talmeinafræðinga við Reykjalund, aðjúnk við HÍ og nú teymisstjóri/talmeinafræðingur hjá Kjarki og dr. Helgu Thors sérstaklega velkomnar. Rakti hann sögu samstarfs félagsins við talmeinafræðinga, en Þórunn flutti gegnmerkt erindi um þjálfun slagþola með málstol. Ræddi hún m.a. um hópastarf fyrir fólk með málstol á vegum Heilaheilla og talmeinafræðinga ´24 -´25. Sagði hún samstarf stjórnar Heilaheilla og talmeinafræðinga hafi m.a. verið í gegnum NAR (Nordisk Afasiråd). Lagði hún áherslu á að efla tækifæri slagþola til félagsstarfs; tækifæri til að eiga rödd; tækifæri til að segja frá og spjalla; tækifæri til að sjá hvernig aðrir takast á við málstolið; tækifæri til að kynnast fólki sem er að upplifa svipaða hluti og skilur o.s.frv.. Þetta hópastarf er til að koma í veg fyrir félagsleg einangrun, depurð, mynda tækifæri til að spjalla og segja frá og kynnast nýju fólki. Taldi hún að allir talmeinafræðingarnir, eru voru í þessu samstarfi 2022, lýstu yfir áhuga á að taka þátt í því aftur, þó einstaka hafi þurft að segja sig frá starfinu tímabundið vegna persónulegra ástæðna. Svo ekki virðist vera skortur á talmeinafræðingum til samstarfs við félagið í þessu átaki. Benti hún á mikla möguleika í tæknisamfélaginu, varðandi tölvur, snjallsíma o.s.frv.. Nokkrar fyrirspurnir voru bornar fram, m.a. um talmeinaþjónustu út á landi o.s.frv.. Að lokum þakkaði formaðurinn fundarmönnum þátttökuna og sleit fundi.