Særún Harðardóttir

Særún Harðardóttir

Árið 2007 var ég á mínu 35 aldursári, þriggja barna gift kona og var að byrja í söngnámi.  Ég var alla tíð frekar heilsuhraust, reykti ekki, drakk lítið sem ekkert, meðgöngur og fæðingar barnanna minna höfðu gengið vel fyrir sig og ég var ávallt í eða undir kjörþyngd.  Frá því ég man eftir mér hafði það verið draumurinn minn að læra að syngja og loksins lét ég verða að því í janúar þetta ár svo það voru spennandi tímar framundan.  17. mars breyttist allt.  Ég fór með 15 ára gamla dóttur mína í Kringluna um hádegið þennan dag.  Ég man að ég var hálf æst í skapi og óþolinmóð.  Á leiðinni heim stoppuðum við í bakaríi.  Ég pantaði hjá afgreiðslustúlkunni en hafði gleymt kortinu mínu í bílnum svo ég hljóp út í bíl, sótti það og gekk til baka.  Þá var eins og jörðin bylgjaðist undir mér og ég missti jafnvægið.  Ég hélt að ég væri kannski með blóðsykursfall og gekk áfram en þegar ég ætlaði að taka í hurðarhúninn á bakaríinu þá hreyfðist hægri höndin mín ekkert.  Ég uppgötvaði að hún var algjörlega lömuð frá hálsi niður í fingur.  Ég borgaði fyrir vörurnar og bað afgreiðslukonuna að setja fyrir mig í poka því ég væri bara allt í einu orðin lömuð í annarri hendinni.  Hún gerði það og ég keyrði svo heim.  Ég man óljóst eftir ferðinni heim.  Dóttir mín segir að ég hafi talað stanslaust og verið mjög æst.  Þegar heim kom þá hljóp hún á undan mér inn og sagði við pabba sinn að það væri eitthvað verulega mikið að mér.  Við hringdum í læknavaktina og töluðum við hjúkrunarfræðing sem sagði mér að koma og hitta lækni.  Það gerði ég og maðurinn minn kom með.  Læknirinn hringdi á bráðamóttökuna og þar var honum sagt að senda mig strax niður eftir í Fossvog.  Þegar þangað var komið voru prófanir og rannsóknir gerðar og allan tímann hugsaði ég að þetta væri nú algjör óþarfi,  sennilega væri ég nú bara með klemmda taug í öxlinni.  Næstu fjóra dagana lá ég inni á Taugadeildinni og vissi ekkert hvað var í gangi.  Ég spurði heldur ekki mikið því ég var eiginlega alveg viss um að það væri eitthvað saklaust að mér sem myndi bara jafna sig.  Þessa daga fór ég að fá smá mátt í fingurna.  Ég man hvað það var skrítið að vera á einu augnabliki aðeins með eina hönd starfhæfa.  Hversdagslegar athafnir sem maður var vanur að gera nánast ómeðvitað, eins og að bursta tennurnar og fara í sturtu, þurfti ég allt í einu að hugsa út áður.  Ef ég þurfti að bylta mér í svefni þá varð ég að vakna til að færa lömuðu höndina til um leið.  Læknirinn minn, Gylfi Þormar, sagði það mikilvægt að örva taugarnar í hendinni með því að snerta við hinumýmsu hlutum og það gerði ég óspart.  Ætli það hafi ekki verið kómískt að sjá mig stundum, snertandi alla skapaða hluti sem í kringum mig voru.  Það sem ég fann líka á þessum tíma var svakalega mikil syfja.  Ég svaf stundum 10 tíma yfir nóttina og var svo leggjandi mig yfir daginn í tíma og ótíma.  Ég fann einnig fyrir mikilli depurð í langan tíma á eftir. 
Á fimmta degi frá þessum örlagaríka degi kom niðurstaðan svo í ljós, blóðtappi í vinstra heilahveli sem skilið hafði eftir 8 mm skemmd í heilaberkinum.  Það var með engu móti að ég næði utan um þessar upplýsingar.  Ég var bara í sjokki og trúði ekki að þetta gæti verið að koma fyrir mig.  Í kjölfarið fór ég í hjartaómun í gegnum vélindað og þar kom í ljós að ég var með fæðingargalla, Patent Foramen Ovale, sem fjórðungur mannkyns er líklega með.  Þetta er op milli hólfa sem á að lokast á fósturskeiði en lokaðist ekki hjá mér.  Læknar leiða líkum að því að þannig gæti blóðtappinn hafa komist upp í heila – í gegnum þetta op.  Ekkert annað „óeðlilegt“ fannst að mér svo ég byrjaði á blóðþynnandi meðferð og fór í sjúkraþjálfun.   Það var ansi fljótt sem ég ákvað innra með mér að ég skyldi ekki láta þetta stoppa mig – ég myndi fara í gegnum þetta og vera sterk.  Ég var ákveðin að halda áfram í söngnáminu og tveimur mánuðum eftir slagið tók ég grunnstigspróf í einsöng með glæsilegar einkunnir.  Ég átti samt ansi oft erfiða tíma  því ég fann svo mikið fyrir því hvað hafði tapast við slagið.  Jafnvægi mitt og úthald var ansi slæmt, öndunin var orðin mun slappari, minnið var ekki gott og ég fann að ég átti erfitt með að tengja hugsanir við mál.  Ég á enn í basli með að muna orð og tafsa svolítið þegar ég tala.  Eins er með skrif í tölvu, ég rugla stöfum ansi oft og það tekur mig lengri tíma að skrifa bréf í tölvunni heldur en áður.  Ég verð stundum pirruð að finna að ég get ekki gert sömu hluti og áður eða þurfi að gera hlutina öðruvísi.  Þegar ég er lasin eða þreytt ber þó mest á þessu.  En þá er oftast nóg að hugsa um hversu heppin ég var í raun og veru því auðvitað hefði ég getað farið mun verr út úr þessu en ég gerði. 
Í febrúar 2008 fór ég í hjartaþræðingu þar sem gatið var bætt og kom þá í ljós að ég var með ansi stóra þverrifu þarna á milli, 1,2cm x 1,6cm.  Ég var því fegin að hafa tekið ákvörðun um að láta laga þennan galla.  Þó ekki sé hægt að sanna að gatið hefði valdið því að blóðtappinn fór í heilann þá vildi ég gera allt til að koma í veg fyrir að svona gæti gerst aftur.  Í dag reyni ég að hafa líf mitt eins streitulítið og hægt er.  Ég hef aðlagast þokkalega þeim breytingum sem ég hef orðið fyrir vegna slagsins og held ég að það sé mest því að þakka að í huga mér og hjarta finn ég fyrir svo miklu þakklæti.  Ég er þakklát fyrir frábæra lækna, hjúkrunarfólk og annað starfsfólk sem við eigum hér á Íslandi.  Þau unnu starf sitt af mikilli fagmennsku en jafnframt af hlýju.  Ég er þakklát fyrir mína yndislegu fjölskyldu sem studdi mig á ótrúlegan og óeigingjarnan hátt.  En umfram allt er ég þakklát Guði fyrir þessa reynslu því hún hefur kennt mér að taka engu sem sjálfsögðu í lífinu og sýnt mér hvers ég er megnug.

 

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur