Hildur Grétarsdóttir, viðskiptafræðingur

Hildur Grétarsdóttir, viðskiptafræðingur

Ég fékk heilablóðfall 28. desember 2003. Þann dag fór fjölskyldan í gönguferð í Heiðmörk ásamt vinafólki. Þetta var langur göngutúr sem reyndi nokkuð á þar sem tveggja ára dóttir okkar var dregin á snjóþotu um alla Heiðmörkina. Þegar við komum aftur að bílnum og ég var að stíga inn í hann fékk ég gríðarlegan höfuðverk. Ég var viss um að eitthvað alvarlegt var að gerast, því stuttu áður hafði ég séð þáttinn Fólk með Sirrý þar sem fjallað var um heilablóðfall. Þar var m.a. lýsing á því hvað það fylgir því mikill höfuðverkur þegar æðargúll í höfðinu gefur sig.

Þó þessi atburður sé í nokkurri móðu þá er ég alveg klár á því að ég vissi að þetta var heilablóðfall vegna þeirrar vitneskju sem ég hafði orðið vísari með því að horfa á þáttinn hennar Sirrýar.

Við ákváðum strax að fara á Landsspítalann í Fossvogi og ég var komin undir læknishendur um 20 mínútum eftir að þetta gerðist. Ég var með meðvitund alla leiðina að spítalanum og verkirnir voru gríðarlegir og allt á fleygiferð í höfðinu á mér.

Fyrsta greining sem gerð af starfsfólki slysavarðstofu, eftir lýsingu mannsins míns á því sem gerst hafði, var að þetta væri æðargúll og reyndist það vera rétt. Ég var send í heilaskanna og á þeim tímapunkti hætti ég að anda. Það er alveg ljóst að þegar æðargúll á slagæð gefur sig þá skiptir miklu máli að komast strax undir læknishendur til að halda lífi. Ég þakka því guði fyrir það hvernig þetta bar að. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef æðargúllinn hefði farið í gönguferðinni sjálfri en ekki þegar við vorum komin að bílnum.
Ákveðið var að létta á þrýstingnum í höfðinu með því að láta slöngu í höfuðið og daginn eftir var ég skorin upp af Aroni Björnssyni og hann setti klemmu á æðina.

Æðargúllinn var á slagæð en blæðingin skaðaði ekki málstöðvar og olli ekki hreyfihömlun. Hins vegar fylgdu miklir bak- og taugaverkir neðst í bakninu sem voru viðvarandi í 2 mánuði eða á meðan blóðið var að hreinsast úr líkamanum.

Aðaláhrifin af þessu áfalli hafa verið gríðarleg þreyta. Ég var á spítalanum í tvær vikur. Fyrri vikuna var ég varla með meðvitund og ekki var ljóst fyrr en einhverjum dögum eftir aðgerðina hvort ég myndi lifa eða deyja. Þetta var því mjög erfiður tími fyrir mína nánustu. Seinni vikuna var ég meira og minna sofandi.

Heilaskurðaðgerðin tókst mjög vel hjá Aroni Björnssyni og þakka ég honum að ég er enn ofan moldar. Það voru í raun mjög lítil eftirköst af aðgerðinni, ég var reyndar lengi vel dofin á höfðinu þar sem skurðurinn er. Það hefur hins vegar breyst og ég finn ekki mikið fyrir því í dag. Sá tími sem ég var á spítalanum er í nokkurri móðu. Ég var fyrst á gjörgæslu í einhverja daga eftir aðgerðina en var síðan flutt á B-6. Ég man auðvitað ekkert eftir mér á gjörgæslunni en starfsfólkið á B-6 var yndislegt og gerði allt til að manni liði sem best.
Þegar ég var búin að vera viku eða hálfan mánuð heima fórum ég og maðurinn minn og hittum Aron og hann sagði okkur viðhverju við mættum búast næstu vikurnar og mánuðina. Hann talaði um að það tæki langan tíma að ná upp orkunni og ég mætti því búast við mikilli þreytu a.m.k í eitt til tvö ár. Ég gæti alveg búist við því að geta ekki gert eitthvað sem ég hafði getað áður. Þá talaði hann um að blæðingin gæti haft áhrif á skammtímaminnið. Þetta hefur í raun allt komið í ljós og því var mjög gott að fara yfir þessi mál með Aroni. Ég gat líka alltaf hringt í hann á morgana ef ég þurfti að ræða eitthvað við hann.

Sá tími sem ég var heima var nokkuð erfiður. Ég reyndi að fara út að ganga þar sem það hafði bæði góð áhrif á bakverkina og létti lundina. Aðgerðarleysi hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér og því fór ég strax að vinna um leið og bakverkirnir hurfu en það var tveimur mánuðum eftir áfallið. Það má segja að einmitt sú staðreynd að ég hef alla tíð haft mikla þörf fyrir að taka þátt í öllu mögulegu og vera á fullri ferð hefur kannski gert þetta allt miklu erfiðara en ella. Í dag leyfir orkustig líkamans ekki nema brot af því sem ég gat áður gert. Orkan hefur að sjálfsögðu aukist eftir því sem tíminn líður en það vantar enn mikið upp á að ég hafi náð henni að fullu.

Það skiptir mjög miklu máli þegar fólk lendir í svo miklu áfalli sem heilablóðfalli fylgir að mæta skilningi hjá sínum vinnuveitanda. Ég er svo heppin að vinna hjá fyrirtæki sem sýndi mér fullan skilning. En ég veit líka að það hefur verið mjög erfitt fyrir samstarfsmenn mína að gera sér grein fyrir því hvað ég réði við og hvað þeim væri óhætt að láta mig hafa af verkefnum. Þó að liðin séu nærri því tvö ár frá heilablóðfallinu er ég enn í erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hversu mikið ég þoli að vinna. Um leið og álagið verður mikið og vinnudagurinn of langur þá dettur orkan niður og það hefur ekki góð áhirf á andlegu hliðina.

Það sem hefur reynst mér töluvert erfitt er að komast af stað í einhverja líkamsrækt vegna þreytunnar sem eru eftirköst heilablæðingar. Það er auðvitað undirstaðan í góðri heilsu bæði andlegri og líkamlegri að hreyfa sig og ná upp líkamlegum styrk. Síðasta haust fór ég því til sjúkraþjálfara til að reyna að komast af stað. Ég æfði hjá Gáska í einn mánuð og það hafði jákvæð áhrif og ýtti manni áfram að láta fylgjast með sér. Síðan fór ég í Sporthúsið og ætlaði að reyna að æfa ein samkvæmt því prógrammi sem sjúkraþjálfarinn hafði útbúið fyrir mig. Það gekk ekki vel. Ég æfði kannski í einn mánuð en gerði lítið sem ekkert eftir það fyrr en núna í haust en þá ákvað ég að fara í Rope Yoga hjá Elínu Sigurðardóttur (www.elin.is). Það hefur reynst mér mjög vel. Í Rope Yoga næ ég upp orkunni og því er það besta sem ég geri, ef ég er þreytt, að fara í tíma til Elínar. Ég hef einnig farið í nálastungur og nudd til Ólafar Einarsdóttur allt þetta ár og tel ég það hafa jákvæð áhrif og hjálpa mér að ná upp orku.

Mig langar aðeins að segja frá því hvað ég hefði viljað sjá öðru vísi sérstaklega fyrsta árið eftir heilablóðfallið. Ég hefði auðvitað viljað hafa aðgang að félagsskap eins og Heilaheill er. Það er svo skrítið að enginn í heilbrigðiskerfinu benti mér á þennan félagsskap. Ég veit að félagið hefur verið í einhverjum dvala og nú er verið að enduvekja og endurskýra það. Ég segi bara “frábært”. Það er mjög mikilvægt fyrir þá sem lenda í jafn miklu áfalli og heilablóðfall er að hafa einhverja til að ræða við og bera saman bækur sínar. Það sem nú er verið að gera er því mjög mikilvægt.

Ég hefði líka viljað sjá meiri stuðning og endurhæfingu. Mín sannfæring er sú að ef einstaklingur nær upp líkamlegu þrekiþá hlýtur það að hafa jákvæð áhrif á orkustig líkamans. Við vitum það öll að það getur verið erfitt að koma sér í ræktina þó að maður sé heill heilsu, hvað þá þegar maður er alltaf þreyttur. Fyrsta mánuðinn eftir heilablóðfallið er í raun lítið annað að gera en sofa og hvíla sig. Eftir það held ég að það hefði verið skynsamlegt a.m.k. í mínu tilviki að fá að fara á Reykjalund daglega í einhverjar æfingar til að styrkja líkamann. Það hefði alveg örugglega hjálpað og ekki síður andlegu hliðinni en þeirri líkamlegu.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa aðstoðað mig í mínum veikindum. Sérstaklega vil ég þakka Aroni Björnssyni lífgjöfina og aðstandendum mínum, vinnuveitanda og vinnufélögum þolinmæðina.

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur