Edda Þórarinsdóttir, leikkona – (Cerebral arterio-venous malformation)

Edda Þórarinsdóttir, leikkona - (Cerebral arterio-venous malformation)

Byrjunin – Heilablóðfall vegna æðaflækju
Ég man 12. október 1975, eins og hann hefði átt sér stað í gær. Daginn sem ég fékk heilablóðfallið. Ég var 29 ára gömul og bjó ásamt manni mínum og fjögurra mánaða gömlum syni í tveggja hæða húsi í Hafnarfirði.

Maðurinn minn var ekki í bænum og ég hafði skorðað strákinn í afturhallandi barnastól áður en ég skrapp niður í þvottahúsið í kjallaranum með óhreinar bleyjur, en á þeim tíma voru einnota bleyjur bara notaðar ef maður fór í ferðalag eða eitthvað sérstakt stóð til.

Ég var því með nokkuð þungan plastbala í fanginu þegar ég hrasaði í bröttum steintröppunum. Mér fannst ég ekki meiðamig neitt svo ég reis upp og hélt áfram niður í þvottahús. Mér fannst þó eins og það blæddi úr höfðinu á mér, strauk hendinni eftir staðnum þar sem mér fannst blæða, en sá ekkert blóð.

Ég stakk bleyjunum í vélina og fór upp til barnsins. Þegar upp kom fann ég að mér leið eitthvað einkennilega, með smá svima og ógleði. Ég hringdi þá í pabba minn, sem var læknir, en hann og mamma höfðu brugðið sér niður að tjörn með barnabarni. Ég datt ekki í hug að eitthvað alvarlegt væri að mér, en bað þann sem ég talaði við að biðja pabba að hringja þegar hann kæmi heim.

Bjargvætturinn
Konan á efri hæðinni var heima þennan dag og stiginn niður í kjallarann var sameiginlegur báðum íbúðunum svo ég þurfti ekki annað en að fara út á stigapallinn og kalla upp. Hún brást fljótt við og kom niður til mín og áttaði sig strax á að ég var að verða alvarlega veik. Ég var róleg og sagði henni að bíða þangað til að pabbi hringdi, en hún lét ekki segja sér fyrir verkum og hringdi sjálf á læknavaktina í Hafnarfirði.

Ungi kandidatinn sem var á vakt þennan dag var staddur í hverfinu mínu og var því mættur innan skamms. Ég var orðin meðvitundarlítil og farin að kasta upp og hann áttaði sig strax á alvöru málsins. Ég man eftir unga manninum, en man svo ekki meir. 

AðgerðinÞað vildi mér sjálfsagt til happs að nýlega voru komnir til landsins tveir ungir læknar sem voru menntaðir heila- og taugaskurðlæknar og annar þeirra, Kristinn Guðmundsson, var kallaður til. Á þessum tíma voru ekki til sneiðmyndatæki, en notast við æðamyndatökur. Rannsóknin leiddi í ljós fyrirferð í heila vinstra megin og strax var farið í skurðaðgerð. Í aðgerðinni var tæmd út blæðing sem sat inni í heilanum vinstra megin.

MálstolÁ meðan ég var meðvitundarlaus var ekki vitað hvaða áhrif blæðingin hefði haft á líkamann, en þegar ég vaknaði kom í ljós að ég var ekki lömuð en átti erfitt með að tjá mig. Það voru aðallega nafnorðin sem höfðu horfið úr málinu og þær setningar sem ég reyndi að mynda voru oft skrýtnar, svo sem “ Viltu rétta mér ????” Mig langar í ???”. Ég reyndi svo að útskýra nafnorðin með látbragði. Þá kom sér oft vel að vera menntuð leikkona! Stundum mundi ég þó nafnorðin á ensku, eins og t.d. matches (eldspýtur). 

Ég gat eiginlega ekkert lesið og jafnvel lítil skrýtla í Mogganum var óskiljanleg. Stafirnir rugluðust allir og það tók mig óratíma að átta mig á innihaldi brandarans og oft gekk það alls ekki. Á meðan ég lá á spítalanum kom stundum til mín kona (í hvítum slopp) sem var að reyna að hjálpa mér við að lesa á ný. Ég er ekki viss um að hún hafi verið atvinnumanneskja í faginu. Allt var svo nýtt í þessum fræðum á Íslandi þá og margir þeirra sem fengu heilablóðfall, áður en ungu læknarnir komu, voru sendir til Danmerkur.

Sú í hvíta sloppnum lét mig fá bók að lesa, sem var það mesta torf sem ég hef séð. Móðir mín staðfestir að það sé rétt munað hjá mér. Bókin var ekki ljóðabók en innihélt skáldlegar lýsingar á fjörunni, steinum hennar og skeljum. Tilraunir til að lesa hana voru algerlega vonlausar og ýttu ekki undir bjartsýni mína um að næði að geta lesið aftur. Á þessu stigi held ég að Litla gula hænan hefði hjálpað mér mest. Konan í hvíta sloppnum gaf mér þó eitt gott ráð: “Að hafa alltaf við hendina litla minnisbók og skrifa í hana þau orð sem ég átti í vandræðum með að muna”.

Heim
Eftir rúman mánuð á spítalanum var ég útskrifuð, en fékk á daginn konu sem hugsaði um barnið mitt og heimilið. Það var víst ekki þorandi að hafa mig eina með barnið. En allt gekk þetta vel og eftir nokkrar vikur var ég farin að fara sjálf út í búð, en átti oft í erfiðleikum með að tjá mig og ruglaði orðum saman svo að afgreiðslufólkið átti erfitt með að skilja mig. Konan í bakaríinu var t.d. hissa þegar ég sagðist ætla að kaupa vínber, en átti við vínarbrauð.

Batinn   En hægt og rólega fóru nafnorðin að koma til baka og eins og einhver læknirinn sagði, þá má kannski líkja heilanum við kommóðu þar sem ein skúffan bilar. En hægt og róleg taka hinar skúffurnar yfir hlutverki þeirrar biluðu. Það hjálpaði mér líka mjög mikið að um vorið fékk ég hlutverk í leikhúsinu og notaði allt sumarið til að liggja yfir textanum og reyna að læra hann utan að. Fyrst gekk það mjög illa, en smám saman kom þetta allt saman. 

Flogaveiki
Um það bil ári eftir blæðinguna byrjaði flogaveikin, en sem betur fer hef ég aðeins tvisvar fengið alvarleg köst og rankað við mér á spítala, en oftar hef ég fengið aðkenningu að kasti. Ég var á sterkum lyfjum í átta ár, en þegar ég losnaði hægt og rólega við þau fór lífið að færast í eðlilegt horf aftur. Mér finnst ég því hafa verið stálslegin undanfarin tuttugu ár. Maður lærir að lifa við veikleika sína og tekur tillit til þeirra og það sem mikilvægast er að maður lærir hvað lífið er dýrmætt. 

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur