Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður

Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður

Létt á fæti og kvik í hugsun á ný

Ég var búin að vera með höfuðverk og þungan verk við endajaxl í nokkra daga. Föstudaginn 20.febrúar 2004 vaknaði ég snemma með 4 ára syni mínum eftir erfiða nótt vegna mikilla verkja. Þegar ég vakna þá er helmingurinn af andliti og höfði undirlagt af verkjum og ég get ekki sinnt barninu. Hann ákveður (sem var alveg ótrúlegt) að fara yfir til nágranna okkar sem áttu strák á sama leikskóla og biðja um far þar sem mamma væri svo veik. Eftir það leggst ég aftur uppí rúm og reyni að sofna í þeirri von að þetta fari nú að lagast.

Fór fyrst til tannlæknis
Uppúr níu er ég búin að átta mig á því að eitthvað verði að gera. Eftir að hafa greint það sem ég taldi rót verkjanna sem líklega hreyfingu á endajaxli sem lægi á taug, hringi ég í tannlækni minn og hann tekur strax á móti mér. Hann sér strax að heimagreining mín var kolröng og að það væri eitthvað mikið að. Því hringir hann uppá spítala og talar þar við taugalækni og fleiri aðila. Úr verður að hann sendir mig uppá bráðamóttöku – sem betur fer. Ef hann hefði ekki gert það hefði ég aldrei farið, heldur farið heim í rúm.

Á bráðamóttökunni
Á bráðamóttökunni var vel tekið á móti mér. Ég þurfti að bíða frammi í nokkurn tíma áður en kom að mér og ég held ég geti fullyrt að það hafi verið versti tími sem ég hef upplifað þar sem  ástandið var orðið þannig á mér að ég gat illa setið upprétt. Ungur læknir tekur síðan á móti mér og fylgdi mér í gegnum allt ferlið eftir það og talaði mikið við mig. Á ég honum mikið að þakka. Ég fékk verkjalyf þannig að mér leið örlítið betur og var síðan send í myndatökur og rannsóknir. Þetta var rosalega skrýtin tilfinning að vera þarna svona veik og vita ekkert. Ég bjóst eiginlega við því að ekkert kæmi útúr þessu og ég yrði send heim og sagt að taka því rólega í nokkra daga. En þegar hersing lækna gekk inná stofuna mína áttaði ég mig strax á því aðég færi líklega ekki heim alveg strax a.m.k.

Ógleymanleg tilfinningÞetta var hópur af taugalækningadeild sem kom þarna inn til mín og sagði mér fréttirnar að sést hefði blæðing við smáheila sem valdið hefði bjúg. Til að sjá þetta betur þá ætti að senda mig með sjúkrabíl yfir á Hringbrautina í segulómskoðun. Svona eftir á man ég þessar mínútur ekkert voðalega vel því auðvitað var maður dofinn af hræðslu. Þar sem ég lá á ganginum og beið eftir að komast að í myndatökuna voru verkjalyfin að hverfa og verkirnir komu aftur af nokkrum krafti og þar brotnaði ég saman. Alein á gluggalausum gangi í kjallara á sjúkrahúsinu þar sem nánast ekkert gsm samband var – ég held að ég hafi aldrei verið jafn einmana á ævinni. Tilfinning sem ég gleymi aldrei.

Sjúkrahúsdvölin
Um kvöldið var ég lögð inná B2 í Fossvoginum. Þar lá ég í 19 daga. Niðurstaða myndatökunnar lá fyrir; ég var með blóðtappa í bláæð við smáheila sem hafði lokað æðinni og blæðing orðið af þeim sökum. Ég var sett á blóðþynningarsprautur í maga sem ég fékk daglega auk verkjalyfja til að leysa þennan tappa upp. Þessi tími er í mikilli móðu og verð ég að viðurkenna að ég man ekki vel eftir þessu, ég man ekki eftir öllum gestunum sem komu til mín. Ég fékk góða umönnun og átti góða herbergisfélaga. Eftir þessa löngu legu var ég þó orðin mjög þreytt – það tekur nefnilega á að liggja á spítala.  

ReykjalundurÉg fór beint úr Fossvoginum á Reykjalund í 6 vikna endurhæfingu. Ég var enn á sprautunum meðan ég dvaldi þar og tókst fyrst að stilla mig inná blóðþynningartöflur daginn áður en ég útskrifaðist af Reykjalundi! Það var þó mikill gleðidagur þar sem sprauturnar voru mér erfiðarog maginn bólginn og þrútinn eftir þær. Á Reykjalundi fékk ég frábæra endurhæfingu sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Ég var í mikilli sjúkraþjálfun til að byggja mig upp eftir alla rúmleguna. Þar leið mér mjög vel og var orðin nokkuð sterk þegar ég útskrifaðist þaðan föstudaginn 23.apríl tvem mánuðum eftir að ég veiktist. Eftir það var ég á blóðþynningarlyfjum fram í október eða nóvember og vegna þess hve miklar sveiflur voru á blóðinu hjá mér þurfti ég að mæta vikulega í blóðprufur á þessum tíma.

EftirköstinÉg gerði mörg mistök eftir að ég útskrifaðist. Ég fór fyrir það fyrsta að vinna strax á mánudeginum eftir útskrift sem var alltof snemmt og vann í 5 vikur. Þá var ég alveg búin og fór aftur í veikindaleyfi. Ég var stöðugt þreytt og með höfuðverki. Ég var líka í fullkominni afneitun vegna þess að ég vildi sýna heiminum að ég væri ekki veik lengur og brosti fölsku brosi þegar staðreyndin var sú að mér leið rosalega illa á líkama og sál. Þess vegna einangraði ég mig nokkuð á þessum tíma. Ég var lengi að jafna mig eftir áfallið vegna þess að ég horfðist svo seint í augu við það sem gerðist. Í sannleika sagt næ ég mér ekki fyrr en nú í sumar (2005) þannig að ég er nánast laus við alla höfuðverki og búin að ná “stjórn” á líkama mínum og mér sjálfri aftur. Í heilt ár var ég með mikla höfuðverki og þar af leiðandi mjög þung og þeir voru margir dagarnir þegar ég hreinlega komst ekki framúr. Það var mikið reynt af lyfjum á mér til að laga höfuðverkinn en ekkert virkaði.

BatinnÍ maí á þessu ári var ég lögð inná spítala eftir langt höfuðverkjakast. Þar lá ég í 5 daga. Ég var send heim með lyfjasúpu í fullt af plastpokum í leyfi. Þarna urðu tímamót í mínu lífi þegar ég dreifði úr þessu á borði heima hjá mér. Ég var komin með nóg af þessu og áttaði mig á því að ef ég ætlaði að ná mér að fullu þyrfti ég að verða virkari gerandi enda varég með mikla höfuðverki og engin lyf höfðu lagað það mánuðum saman. Það er skemmst frá því að segja að ég mætti eftir leyfið á sjúkrahúsið aftur með öll lyfin í pokunum og skilaði þeim. Fór á netið og skoðaði náttúrulækningalyf, bjó mér til minn eigin náttúrulækningalyfjakúr sem byggði mikið til á hreinsun líkamans. Einnig fór ég að stunda líkamsrækt nokkrum sinnum í viku og breytti mataræðinu algjörlega. Ég er mjög þakklát lækninum mínum sem sleppti ekki alveg af mér hendinni fyrr en nú snemma í haust þegar hann sá ekki ástæðu til að gefa mér tíma aftur – þá hríslaðist um mig gleðitilfinning!

Vakna brosandi á hverjum degi
Núna stunda ég reglulega hreyfingu, borða hollan mat, tek bætiefni og náttúrulækningalyf frá grasalækni sem henta mér mjög vel. Allt þetta hefur gert mér mjög gott og meðvitaða um eigin líðan og líkama. Það er smávægileg þrenging í æðinni en hún hefur verið alveg óbreytt og ekkert sem ég þarf að hafa áhyggjur af og er mér sagt að það séu ekkert meiri líkur á að ég fái þetta aftur en hver annar. Mér líður núna rosalega vel. Hræðslan er farin og ég er orðin létt á fæti og kvik í hugsun á ný nokkuð sem ég var orðin úrkula vonar um að upplifa aftur. Ég vakna brosandi á hverjum degi því ég er svo þakklát fyrir hvað þetta hefur allt farið vel!

Að hitta félaga mína í Heilaheill nú í haust hefur líka gert mikið fyrir mig því það er svo gott að hitta reglulega fólk sem skilur hvað maður hefur gengið í gegnum. Þetta er fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri sem maður deilir mikilvægri reynslu með. Því hlakka ég mikið til starfsins innan félagsins í framtíðinni og bind miklar vonir við starfið. Ég hvet því alla sem hafa fengið heilaáfall til að koma og taka þátt í félaginu með okkur!

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur