Ragnar Guðni Axelsson, ljósmyndari

Ragnar Guðni Axelsson, ljósmyndari

Ég spilaði mig til lífsins

Ég var varla lagstur á koddann þegar allt fór skyndilega að hringsnúast í herberginu. Það var eins og eitthvað hefði tognað inni í hausnum á mér, mig vantaði súrefni, ég var að kafna og hálsinn stífnaði upp. Ég stóð upp úr rúminu og spurði Björk konuna mína hvað væri eiginlega að gerast? Öðrum eins hausverk hafði ég aldrei kynnst um ævina. Líkt og einhver væri að blása upp blöðru inni í hausnum á mér. Eftir svolitla stund róaðist ég og lagðist. Við hringdum á læknavaktina og þar var sagt að ég skyldi taka inn magnyl og fara að sofa. Hausverkurinn var svo mikill að mér var algjörlega ómögulegt að fara að þessum ráðum. Ég reyndi að leita skýringa og datt í hug að þetta væri heilahimnubólga. Sagði rólega við Björk að hún og krakkarnir yrðu að halda áfram að lifa ef ég væri að fara. Það var þá sem hún tók af skarið og hringdi á lækni.

Þreyttur og streittur
Dagana áður en þetta gerðist, 8. ágúst 2003, hafði ég verið undir töluverðu álagi. Viðhöfðum fengið leyfi, nokkrir félagar, til að fljúga yfir Þjórsárver á meðan heiðagæsin var í sárum og ófleyg. Flug er annars bannað yfir Þjórsárverum á þessum árstíma. Við höfðum verið í mikilli keppni við veður og tíma. Síðustu þrjá sólarhringa hafði ég lítið sofið. Ég áleit það skyldu mína að mynda svæðið og sýna íslensku þjóðinni einhverja merkustu náttúruperlu á jörðinni svo Íslendingar sjálfir gætu tekið ákvörðun um hvort það ætti að eyðileggja Verin eða vernda.

Daginn áður hafði loksins gefið til flugs. Við fórum eldsnemma morguns með fisvélina mína inn á hálendið, settum hana saman og hófum flugið. Ég flaug nokkrar ferðir yfir daginn til skiptis með félaga mína og við ljósmynduðum eins og þetta væri okkar síðasta tækifæri. Það höfðu verið einhver ónot í mér, en þótt ég reyndi að ýta þeim úr huga mínum vildu þau ekki líða frá. Þegar ég sneri vélinni hálfan hring á jörðu niðri, með því að lyfta undir stélið, skutust ljósdílar fyrir augunum í allar áttir. Ég hafði svo sem fengið svoleiðis áður, ef ég lyfti einhverju þungu, og aldrei velt því neitt sérstaklega fyrir mér.

Þegar myndatökum var lokið um kvöldið leið mér orðið svo illa að ég vildi fljúga einn til baka. Ég lét ekki á neinu bera, en vildi ekki hafa neinn með mér í vélinni ef illa færi á fluginu. Þá færi ég einn í jörðina og enginn af félögum mínum með mér.

Þegar heim var komið upp úr miðnætti var ég kominn með mikinn hausverk. Eitthvað sem ég hafði fengið mjög sjaldan á lífsleiðinni. Ég hef alltaf verið hraustur og aldrei veikst alvarlega eða komið á sjúkrahús, nema til að taka ljósmyndir, þar á meðal af heilauppskurði.

Daginn eftir, 7. ágúst, hafði nokkuð bráð af mér. Að vísu fékk ég hausverk af og til, en ég hef alltaf farið til vinnu hvort sem ég hef verið veikur eða ekki. Ég fór snemma heim úr vinnunni. Reyndi að hvílast en gekk það illa, enda er áreitið töluvert í mínu starfi og farsíminn þegir sjaldan lengi. Ég horfði á sjónvarpið fram eftir kvöldi og fór svo að sofa um tvöleytið um nóttina.

Spítalamatur í hálfan mánuð
Læknirinn kom heim að vörmu spori og skoðaði mig. Honum fannst ég nokkuð frískur, augun voru í lagi en þegar ég fór að kasta upp leist honum ekki alveg á þetta og ákvað til öryggis að senda mig á spítala. Sjúkrabíllinn kom og ég labbaði niður stigann, vildi ekki láta bera mig niður. Fáránleg þrjóska sem hefði getað orðið mér dýrkeypt.

Þegar á spítalann kom beið ég nokkra stund á bráðamóttökunni á sjúkrabörum og hlustaði á konu sem hafði reynt að enda líf sitt með pillum meðan mig langaði að halda lífi. Loks var ég sendur í sneiðmyndatöku og í framhaldinu lagður á gjörgæslu þar sem ég beið eftir niðurstöðum úr myndatökunum. Fljótlega kom Garðar Guðmundsson, heila- og taugaskurðlæknir, ásamt fleira starfsfólki. Hann sagði mér hvað hefði komið fyrir, sprungin æð í heilanum. Nú yrði ég sendur í myndatöku af æðakerfinu í höfðinu til þess að sjá hvar æðin hefði sprungið. Síðan færi ég væntanlega í aðgerð. Ég róaðist mjög við að hitta Garðar. Hann hafði mjög róandi áhrif á mig og frá honum stafaði öryggi. Í myndatökunni fylgdist ég með á skjá hvernig þeir þræddu æðakerfið í hausnum á mér. Þetta var líkast því að horfa á árfarvegi. Ég man óljóst eftir því að hafa heyrt talað um hvað hefði komið fyrir mig. Hugsanlega hafði verið þarna lítill æðagúll sem hafði gefið sig ? Eftir greininguna fékk ég að heyra að æðakerfið í hausnum á mér væri eins og sýnishorn af heilbrigðu æðakerfi. Garðarkvað upp þann úrskurð að ég þyrfti ekki að fara í uppskurð og sagðist hann vera feginn því. Allar slíkar aðgerðir hefðu ákveðna áhættu í för með sér. Ég var á Landspítalanum háskólasjúkrahúsi í Fossvogi í 14 daga. Frábært starfsfólk á deild B2 passaði vel upp á að allt væri í lagi.

Algjör aumingi
Þegar ég kom heim af spítalanum fannst mér ég vera algjör aumingi og nánast skammaðist mín fyrir aumingjaskapinn. Stundum leið mér eins og ég væri geimvera innan um annað fólk. Í fyrstu átti ég stundum erfitt með andardrátt, fékk köfnunartilfinningu og gat hvorki legið eða staðið. Ég var mikið einn heima, strákarnir í skólanum og konan í vinnunni. Ég kvartaði ekki, vildi ekki vera neinum til byrði og það kvaldi mig. Björk Hreiðarsdóttir konan mín reyndist mér frábærlega og sneri oft dæminu við. Ég fór í nudd til Margrétar Alice, sem reyndist mér sérstaklega vel. Hún sagði oft að ég yrði farinn að rífa kjaft áður en ég vissi af. Vinnufélagar mínir og aðrir vinir mínir voru líka frábærir. Ég áttaði mig á því hvað ég átti marga góða vini.

Ég hef alltaf haft gaman af að spila á gítar, öðrum á heimilinu til mikillar armmæðu. Nú hjálpaði það mér mikið að spila og spila og gleyma stund og stað. Ég spilað mig til lífsins. Spilaði þangað til ég var orðinn svo þreyttur að ég sofnaði þar sem ég sat hverju sinni. Tónlistin róaði mig niður og ég losnaði við þessa ónotalegu köfnunartilfinningu.

Hvers virði er lífið?
Áfallið varð til þess að ég fór að velta lífinu fyrir mér upp á nýtt. Hvers virði er lífið og hver er tilgangurinn með því? Það er ekki auðvelt fyrir fullfrískt fólk að skilja hugsanirnar sem fljúga í gegnum huga manns í þessu ástandi. Einnig velti ég því fyrir mérhvers vegna svo mikið er til af grimmu fólki sem vill öðrum illt? Ég komst að því aðjafnvel þótt maður hefði lent í einhverskonar rimmum við aðra, verið þeim ósammála og jafnvel reiður, væri það ekki þess virði að skemma líf sitt á því. Ég fann að mér þykir yfirleitt vænt um annað fólk og ber ekki kala til nokkurs manns.

Þrekið var lengi að koma
Ég var frá vinnu í fimm mánuði, þótt ég stælist til að taka mynd og mynd, þá fyrstu einum og hálfum mánuði eftir áfallið. Hjá mér var þrekleysið og þreytan verst. Þrekið hefur komið hægt og sígandi. Ég nenni ekki í tækjasali og hamast þar á hjóli án þess að mjakast úr sporunum. Ég fór frekar út að ganga og synda og anda að mér frísku lofti. Það urðu mikil umskipti þegar ég fór að hjálpa syni mínum að bera út Moggann. Þá fór þrekið að batna svo um munaði.

Eftirköstin sem hrjá mig nú eru helst eyrnasuð, sem er mismikið eftir álagi dagsins. Ég reyni að vera jákvæður í hugsun og láta hugann reika frá neikvæðninni. Ég hef lifað skemmtilegu lífi, er lífsglaður og á marga vini. Ég á að baki margar hættuferðir við verstu aðstæður sem hægt er að lenda í víða um heiminn. Það hefur aldrei hvarflað að mér að ég kæmi ekki heill til baka úr þeim svaðilförum. Ég hef þurft að stóla á sjálfan mig og almættið í þeim ferðum. Í þeirri för, sem hér er lýst, þurfti ég að stóla á almættið og fólk sem í mínum huga er einhver mesti fjársjóður sem Ísland á. Fólk sem bjargar mannslífum á hverjum degi. Þar á ég við Garðar Guðmundsson, heila- og taugaskurðlækni, og allt starfsfólkið á gjörgæslunni og deild B6 í Fossvogi. Þeim öllum er ég óendanlega þakklátur. Morgunblaðið reyndist mér frábærlega í veikindum mínum. Eins vil ég þakka fjölskyldu minni, þetta eru allt hetjurnar mínar.

Nú lít ég lífið öðrum augum en áður. Það er ekki endalaust, þótt mér hafi fundist vera svo hér áður fyrr. Það er um að gera að njóta hverrar mínútu sem lífið gefur til góðra verka. Við þurfum að læra að meta fjölskyldur okkar, vini og samferðarfólk og þakka fyrir það sem maður á. Síðast en ekki síst að átta sig á því að eftir hverja nótt kemur sólin alltaf upp aftur. 

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur