Vel sóttur aðalfundur HEILAHEILLA var haldinn laugardaginn 16. febrúar í húsakynnum félagsins að Sigtúni 42, Reykjavík, með beinni tengingu norður í samkomusal Einingar á Akureyri. Þar sem félagið er með einstaklingsaðild á landsvísu, getur hver og einn, hvar sem hann býr á landinu sótt fundi félagsins á þessum tveimur þéttbýliskjörnum landsins, ef því er að skipta. Komu menn hvaðanæva að, m.a. úr Langadal í V-Húnavatnssýslu.
Fundarstjóri var Gísli Ólafur Pétursson, en honum til aðstoðar voru þau Valgerður Sverrisdóttir og Birgir Henningsson. Gengið var til kosninga, er Valgerður stjórnaði, á tveimur meðstjórnendum í stjórn HEILAHEILLA, Baldur Benedikt Ermenrekur Kristjánsson og Páll Hallfreður Árdal í aðalstjórn og Kolbrún Stefánsdóttir og Bryndís Bragadóttir (Reykjavík) til vara.
Formannskosningar fara fram á næsta ári, en formaðurinn, Þórir Steingrímsson hefur gegnt þessu embætti í 13 ár. Eftir aðalfundarstörf tjáðu menn sig um velgengni félagsins og lýstu sig reiðubúna til starfa ef eftir því verður leitað.