Freydís Laxdal

Freydís Laxdal

Það vill svo til að ég get þakkað núverandi staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni að eiga eiginmann minn Ævar Hjartarson á lífi ennþá.
Þess vegna langar mig til að segja þá sögu í von um að einhver muni átta sig á því hve völlurinn er mikilvægur hlekkur í því að bjarga mannslífum.
Við erum búsett á Akureyri. Mánudaginn 28. október hringir Ævarr í mig úr vinnu, biður mig að koma því hann sé með mjög slæman höfuðverk og ógleði. Ég fer strax af stað (3–4 mín. akstur), átta mig á því á leiðinni að þetta muni vera Heilablóðfall og bið strax um sjúkrabíl.
Ævarr er fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Rannsóknir á FSA staðfestu hinn illa grun minn. Haft var samband við lækna á LSH í Fossvogi og í samráði við þá var hafinn undirbúningur að flutningi suður. Í
hjarta mínu og barna okkar bjó ótti um að eins gæti farið og 10 árum áður en þá lést tengdamóðir mín í sjúkraflugi suður af sömu ástæðu. Tveimur árum þar á undan var 42 ára systir mín flutt suður í sjúkraflugi með heilablæðingu. Hún náði að fara í aðgerð en varð ekki lífs auðið.
Alltaf tekur einhvern tíma að undirbúa flug og flutning sjúklings, en sem betur fer var þokkalegt veður þegar allt var tilbúið til þess að fljúga af stað með eiginmann minn. Þegar lagt var af stað var Ævarr um það bil að missa meðvitund. Það var ótrúlega mikils virði hve margir starfsmenn FSA kvöddu mig með hlýju faðmlagi.
Meira að segja sjúkraflutningamaðurinn gaf mér þétt faðmlag; ég veit ekki hver hann er en er honum þakklát fyrir umhyggjuna.
 Þegar lent var í Reykjavík beið sjúkrabíll sem fór strax með Ævar á LSH í Fossvogi þar sem hann fór beint í aðgerð, starfsfólk á skurðstofu beið eftir honum.
Ég og dóttir mín, sem flaug með okkur suður, fórum í leigubíl af flugvellinum, en Ævarr var kominn í aðgerð þegar við komum á sjúkrahúsið. Þá tók við bið. Þeir sem hafa lent í álíka kannast örugglega við þær tilfinningar sem brjótast um í brjóstinu við þessar aðstæður. Fótunum er algjörlega kippt undan manni, maður hefur enga stjórn á aðstæðum og eiginlega ekki á hugsunum sínum heldur.
Að lokinni aðgerð kom Garðar Guðmundsson heilaskurðlæknir og sagði að aðgerðin hefði gengið eftir atvikum vel en ekki hefði mátt tæpara standa, þeir hefðu náð honum á síðustu metrunum. Hálf til ein klukkustund í viðbót og allt hefði verið búið.
Blæðing var í litla heila sem stjórnar jafnvægisskyni og öndun. Garðar gaf okkur vonirum bata, en Ævarr væri enn í lífshættu og ekki hægt á þessu stigi að segja til um skaða. Tíminn yrði að leiða það í ljós.
Tók nú við tími vonar og ótta. Ævarr var í og úr öndunarvél og það var ekki fyrr en hálfum mánuði seinna að ég fékk langþráð faðmlag og í raun fyrstu vonina um lengri samleið.
Þremur vikum eftir aðgerð var hann sendur aftur með sjúkraflugi norður á FSA. Þangað var gott að koma aftur. Þá tók við langt og erfitt endurhæfingarferli, fyrst á FSA í sjö til átta vikur og síðan á Kristnesi í sex mánuði. Að átta mánuðum liðnum kom Ævarr heim með göngugrind.
Síðan hefur hann stundað æfingar á endurhæfingarstöðinni Bjargi alla virka daga og er nú svo komið að hann gengur einn úti með einn eða tvo stafi eftiraðstæðum, og enn, eftir þrjú ár, finnum við örlitlar framfarir.
Í dag er hann búinn að ná upp krafti og styrk, vantar töluvert mikið jafnvægi ennþá og vinstri handleggur er
skertur. Sjónin var slæm eftir veikindin, hann sá allt tvöfalt lengi vel.
Nú í nóvember fékk hann ný gleraugu sem nýtast honum vel við lestur, og getur hann unnið smávegis á tölvu.
Hugsun og minni eru í góðu lagi. Hann er búinn að sýna ótrúlega þolinmæði og geðprýðin er til fyrirmyndar, enda sýnir árangurinn það.
Sjá má af þessari sögu að ótrúlega langt er hægt að ná með hjálp heilbrigðisstéttanna – ef aðstæður leyfa
að maður nái á sjúkrahús í tæka tíð.
Mér hefur oft orðið hugsað til þess hversu heppin við vorum að vera stödd á Akureyri, þegar þetta gerðist.
Sólarhring áður vorum við stödd í sumarbústað, klukkutíma akstur í burtu. Hvað ef þetta hefði gerst þá?
Hvað ef flugvöllurinn hefði verið í Keflavík? Þarna skiptir tíminn einfaldlega öllu máli.
Það sem kemur mér til að segja þessa sögu er yfirlýsing frá svokölluðum Höfuðborgarsamtökum í
Morgunblaðinu 29. október sl. Óskapleg reiði gagntók mig þegar ég las hana. Mér finnst ótrúlegt að allir í
þessum samtökum hafi verið sammála um að setja þetta á prent.
Það er skelfilegt að hugsa til þess að fólk telji eftir sér að þola einhver óþægindi vegna flugvallar í Vatnsmýrinni ef það gæti orðið til að bjarga mannslífum, sem ég veit að gerist oft á ári. Og að tala um fórn og fórnarkostnað borgarbúa er fáránlegt.
Eru þeir eitthvað meira virði en við sem búum úti á landi?
Ef við snúum dæminu við og hugsum okkur hátæknisjúkrahús á Dalvík, vildu þá ekki þessi samtök hafa flugvöll þar en ekki á Akureyri?
 Það er álíka langur vegur þar á milli og á milli Keflavíkur og Reykjavíkur og sennilega bara fljótlegra vegna minni umferðar. En það er sjaldnast fyrr en brennur á eigin skinni að fólk skilur hlutina.
Kannski skipta þessar línur engu máli upp á framtíðarstaðsetningu vallarins en mér fannst að einhver ætti að láta í sér heyra sem hefði persónulega reynslu hversu dýrmætar þær mínútur urðu sem spöruðust við það að lenda í Reykjavík en ekki í Keflavík. Ef til vill er enginn feginn hversu vel fór nema við og litla fjölskyldan okkar. En við erum Allavega þakklát fyrir þann tíma sem okkur hefur verið gefinn í viðbót. Þökk sé öllum er að komu.
Ég vona að hagsmunasamtökin „Áfram“ í Dalvíkurbyggð haldi áfram að stuðla að betri byggð í landinu öllu.

Ritað 3. Mars 2006 sem blaðagrein í Mbl.

Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur