Rannveig Eva Karlsdóttir

Rannveig Eva Karlsdóttir

Ég hafði alltaf verið heilsuhraust. Ég hafði unnið að því hörðum höndum að komast inn í draumaskólann minn í London. Búningahönnun fyrir leikhús var draumurinn. Ég flaug inn í skólann og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar bréfið barst mér. Enda fannst mér gráupplagt að fara núna, 27 ára gömul, þá yrði ég þrítug árið sem ég myndi klára. Haustið 2002 fluttist ég því til Wimbledon. Skólann lærði ég fyrirhafnarlaust að elska og það að búa í London, í allri þessari djúpu menningu og umkringd sögunni. Á öðru ári í námi mínu þar, við lok annarrar annar vetrarins breyttist líf mitt.
 
Það var á degi Heilags Patreks. Ég og sambýliskona mín og góð vinkona, höfðum báðar skilað af okkur verkefnum annarinnar og ég átti að fljúga heim til Íslands í mánaðarlangt páskafrí tveimur dögum síðar. Við sátum og spjölluðum yfir kaffibolla þegar ég varð allt í einu eitthvað skrítin. Ég man að vinkona mín var að segja mér frá einhverju þegar ég fann allt í einu hellu fyrir vinstra eyra, hellu sem ágerðist mjög hratt og fljótlega fann ég fyrir stífleika í hnakkanum. Ég sagði henni að eitthvað væri að gerast, hafði heyrt einhvers staðar að heilahimnubólgu fylgdi stífleiki í hnakka, en ég hafði verið stálhraust fram að þessu, reyndar fyrir utan það að rúmri viku áður hafði ég upplifað einhvers konar svimakast. Gat mig varla hreyft án þess að veröldin hringsnérist í kringum mig. En það rjátlaðist af og ég gaf mér engan tíma til að hugsa neitt um það!
 
Fljótlega gat ég ekki haldið augunum opnum, sársaukinn sem birtunni fylgdi var yfirþyrmandi. Vinkona mín hringdi á læknavakt og þar var henni tjáð að ég skyldi taka inn tvær parasetamól og fara í heitt bað! Ég sagði við hana þá, og man það eins og það hafi gerst í gær, að ef ég myndi fara að fyrirmælum læknisins myndi ég aldrei stíga upp úr baðinu! Ég bað hana um að hringja í mág minn sem var nýfluttur til London en hann hafði verið ráðinn sendiráðsprestur í London og eitt af hans verkefnum var að hafa umsjón með sjúklingum sem komu frá Íslandi til læknismeðferðar. Hann kom til mín, en þegar hann kom var ég með köldu og hafði kastað upp. Ég gat engan veginn verið….. og leið skelfilega! Við tókum leigubíl á Kingston sjúkrahúsið, ég man eftir að hafa sest inn í leigubílinn með fötu á milli fótanna, en man svo ekki meir. Mér er sagt að á biðstofunni hafi allt fyllst af ofurölvi írum og bretum sem höfðu fagnað St. Patricks day all hressilega en ég man ekkert eftir því. Um klukkan sex um morguninn man ég fyrst eftir mér þegar mágur minn sagði: “Sjáðu Lalla, það eru diskóljós á þér og allt” og þá rann það upp fyrir mér, ég var stödd í sjúkrabíl, á leiðinni á annað sjúkrahús. Siggi hringdi í mömmu og ég talaði við hana og fór þá að gráta, það rann upp fyrir mér að þetta var virkilega alvarlegt. Ég játa það fúslega að alltaf þar á eftir hef ég hugsað um hræðsluna sem hverju útkalli sjúkrabíls fylgir, og verð alltaf sorgmædd. Sjúkraflutningsmennirnir hughreystu mig þegar þeir kvöddu og sögðu ma. að það yrði allt í lagi með mig, ég væri á góðum stað. Staðurinn var St, Georges´spítalinn í Tooting, sem var mjög nálægt Wimbledon þar sem ég bjó. Prófessorinn sem hitti mig og pabba, sem frétti af veikindum mínum þegar hann var staddur á Kastrup flugvelli á leið á fund í Finnlandi og breytti um stefnu og kom beina leið til mín, tjáði okkur að ég væri  einstaklega heppin kona, ef þetta hefði gerst í svefni væri ég dáin, efég hefði verið útafliggjandi væri ég lömuð. Nú var ákaflega brýnt að ég væri útafliggjandi þar til blæðingin stöðvaðist. Þarna kom það í ljós að ég er með 5cm stóra æðaflækju í heilanum, svokallað AVM. Eftirá að hyggja tengi ég þessa minningu mína við tveggja ára nám í klæðskeranum í Iðnskólanum þar sem kennararnir voru að klifa á því hvað millimetrarnir skipta miklu máli. Í umræðum við skólasysturnar þótti mér smámunasemin heldur ósanngjörn á tíðum en ég skil þetta núna í allt öðru samhengi!

Foreldrar mínir komu bæði þennan dag og voru mjög áhyggjufull, en ég var í því að sannfæra alla í kringum mig um það að allt yrði í lagi, ég fékk annað tækifæri. Fyrstu dagarnir voru mjög tvísýnir. Ég fékk mikinn vökva við heilann, og þeir voru í startholunum að trilla mér inn í aðgerð en það kom ekki til þess, sem betur fer. Fljótlega fóru mér líka að berast kveðjur allstaðar að úr heiminum frá fólki sem sagðist biðja fyrir mér og það var mér svo sterkt haldreipi, þeas ég gat einbeitt mér að því að ná fullum bata og vissi að ég var borin á bænarörmum! Mér var tjáð fljótlega að ég yrði inni á spítalanum í 6 vikur, en 2. vikum eftir þennan örlagadag gekk ég út af spítalanum, útskrifuð. Ég fékk að vita af því að það væri til svokallaður geislahnífur sem gæti losað fólk við flækjur sem þessar. Aftur á móti er flækjan sem ég ber og er hluti af mér eftir þessa lífsreynslu, 5cm löng, en hnífurinn ræður ekki við stærri flækjur en 3 cm. Læknirinn tjáði mér meðal annars að það gæti verið möguleiki að minnka flækjuna með æðaþræðingu og þeir myndu láta mig vita betur eftir að hafa fundað og skeggrætt málin. Ég gekk út af spítalanum á riðandi fótunum, þurfti að vinna upp þrek. Pabbi fór með mig í gönguferðir, fyrst bara rétt út að horni og svo lengra og lengra….. þetta gekk allt saman vonum framar. Þann 16 maí fékk ég að fljúga til Íslands.

Ég gleymi því aldrei þegar ég hitti afa minn og hann lagði báðar hendur á andlit mitt og gerði krossmark á enni mér, það var heilög stund! Kennarinn minn og yfirmanneskja búningadeildar í skólanum vildi gera allt til að ég kláraði námið og var mér svo ótrúlega hlý og góð og hafði list því yfir að þegar ég væri tilbúin til umræðu væri hún öll af vilja gerð, sem var svo mikil hvatning þar sem þetta nám var mesti draumapottur sem ég hafði komið nálægt! Í júní hafði læknirinn samband og sagði að 21.júlí vildu þeir láta á það reyna að minnka flækjuna. Það hefði þó ýmislegt í för með sér, ég mætti td. eiga von á því að missa mátt í hægri hluta líkamans, en mér var sama um það, ef flækjan færi væri ég sátt. Ég var 5 klst. á skurðarborðinu og vaknaði upp og fékk að vita það að þeir höfðu reynt allt, en þar sem flækjan umvefur slagæð á alla kanta hefði hættan á því að ég fengi slag alltaf verið fyrir hendi. Við þessar fréttir hrundi líf mitt. Ég átti erfitt með svefn þar sem ég vissi að ef ég fengi heilablæðingu í svefni myndi ég ekki vakna aftur. Ég týndist ef svo má segja….. týndi sjálfri mér, var orkulaus og uppgefin. En svo gerðist kraftaverk, ég komst að því að ég var ófrísk! Settur dagur var 16.mars, réttu ári eftir heilablæðinguna. Í myrkrinu kviknaði neisti, von! Því miður var barnsfaðir minn ekki tilbúinn að taka þátt á nokkurn hátt. En fyrir mér var þetta litla undur svo skýr áminning, og það var aldrei nein spurning að það undur gerbreytti öllu fyrir mér. Í stað þess að slökkva ljósið á kvöldin og fyllast ótta, gat ég lagt hönd mína á kviðinn og hugsað um litla ljósið! Lífið sigraði! Þegar ég sagði kennara mínum frá þessu sagði hún mér að drífa mig í því að skrifa BA ritgerðina og þá væri ekkert mál að koma aftur og klára hvenær sem væri! Sem ég og gerði, og fékk allan stuðning til þess. Haustið 2002 hóf ég nám í búningahönnun í Wimbledon College of Art, sjö árum síðar þe. Heilablæðingu og barni síðar, heilmiklum lærdómi í búningasögu, búningahönnun og gerð, að auki drjúgum kúrs í lífsins skóla síðar, gekk ég upp á svið og tók á móti diploma BA(Hons) í Búningahönnun.

Sl. sumar skrifaði ég undir árssamning sem búningahönnuður hjá Leikfélagi Akureyrar, fluttist hingað í lok ágúst og líf mitt er draumur. Auðvitað hvolfast minningarnar yfir mig af og til. Þetta var stór pakki, sem ég er ennþá að takast á við en, ég horfi fram á veginn! Það er eina áttin sem ég þekki, en er þó ómögulegt að þekkja á nokkurn hátt. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir yndislega fjölskyldu og vini, frábært starfsfólk í heilbrigðisgeiranum, til að nefna þar nöfn tók Aron Björnsson við mér hér heima og hefur reynst mér sem klettur, og fyrir lífið og öll litbrigði þess.

Ég veit af meini mínu, en þekki það svo sem lítið. Reynslan er alltaf með mér en ég lærði líka af henni. Það net sem við höfum í kring um okkur skiptir öllu máli, og viðhorfið til lífsins.

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur