Ingólfur Margeirsson, rithöfundur

Ingólfur Margeirsson, rithöfundur

Sumarið var farið að láta á sér kræla og sálin lyfti sér til himna með síaukinni birtu. Dag einn þegar veðurspáin var óvenju hagstæð fyrir Norðurland ákváðum við að aka norður og dvelja eina helgi í húsi okkar í Hrísey. Ég hafði ekki komið í eyjuna frá því ég fékk þar heilablóðfallið tæpu ári áður. Í brjósti mér tókust á tilhlökkun og kvíði. Eftir tíðindalausa ferð norður ókum við út Eyjafjörðinn og kvöldsólin gyllti himinn og haf. Gleðin var efst í huga okkar allra.

Mér sýndist meira að segja Oliver sperra lafandi eyrun. Við vorum enn einu sinni á leiðinni heim. Áhöfn Hríseyjarferjunnar fagnaði okkur eins og vinum, sem höfðu risið upp frá dauðum. Góa og Jónas sátu í farþegasalnum en ég stóð úti með Oliver á þilfari ferjunnar. Ég fylgdist með lágflugi mávanna, ólýsanlegri fegurð himinsins og útlínum eyjunnar sem beið okkar fagnandi í fjarlægð.

Nágranni okkar Jón stóð á bryggjunni með dráttarvélina sína. Eftir að hafa faðmað okkur ók hann með okkur áleiðis að húsi okkar. Alls staðar var mér fagnað. En það var engu líkara en ég hafði verið heimtur úr helju. Það var eins og eyjaskeggjar hefðu ekki búist við að sjá mig aftur á lífi. Ekki leið á löngu uns nágranni okkar ók okkur á bak við Kristófershús. Við bárum farangurinn inn og Oliver hnusaði í hvern krók og kima. Við nutum þess öll að vera komin enn einu sinni í sumarparadís okkar. Ég gekk út á pallinn og dró að mér andann. Loftið angaði af gróðri jarðar og sjávar. Fyrir ofan höfuð mitt svifu mávar og kríur. Úti á víkinni synti æðarkolla með ungana sína í halarófu á eftir sér. Sólin roðaði fjöllin handan fjarðarins og dimmbláir skuggar höfðu myndast í skorningunum. Taktfast vélarhljóð bergmálaði á milli fjallanna þegar einstaka trilla sigldi hjá. Það fór ekki á milli mála; sumarið var komið í Eyjafjörðinn. Ég gekk aftur inn í húsið og stakk höfðinu inn í vinnuherbergið. Í þessu herbergi hafði ég skrifað fjölmargar bækur og ég vissi að þar ættu fleiri ritverk eftir að fæðast. Ég vissi það á þessari stundu að þarna átti ég eftir að vinna mörg ár til viðbótar. Þegar ég kom aftur út sagði ég gáskafullur við eiginkonu mína:

Á næstu dögum fórum við í gönguferðir, heilsuðum upp á gamla kunningja og vini og kættumst yfir því að vera til. Á nóttunni svaf ég eins og barn. Ég lagði mig einnig stundum á daginn, opnaði alla glugga í stofunni, kastaði mér upp í sófa og dró teppi ofan á mig. Ég naut þess að finna hlýja sumarvindana leika um vanga mér, heyra öldurnar gæla við fjörusteinana fyrir utan gluggann og stundum hélt Oliver mér félagsskap með því að stökkva upp í sófann og leggjast við fætur mínar. Þá hugsaði ég stundum um það hve mikilvægt það er að kunna að þiggja þær gjafir sem lífið færir. Stundum átti ég í erfiðleikum með að brölta um húsið, einkum í stiganum á milli hæðanna. Ég setti þetta ekki fyrir mig því aðalatriðið var að vera kominn til Hríseyjar og njóta þar lífsins. Á daginn sleppti ég Oliver oft lausum og fylgdist með honum hlaupa um og njóta frelsisins. Það mátti vart á milli sjá hvor okkar naut frelsisins betur. Stundum kom það fyrir að hann hvarf sjónum okkar og þeyttist í átt að þorpinu. En hann var iðulega keyrður til baka af hjálpsömum eyjarskeggjum og sat þá gjarnan í framsætinu hálf lúpulegur. Hann vissi upp á sig skömmina en stundum brá þó fyrir monti í svip.

Þegar helgin var liðin héldum við suður á bóginn. Á leiðinni til Reykjavíkur hugleiddi ég einatt að mér væru flestir vegir færir. Ég gat skroppið til útlanda jafnt því sem ég gat haldið til Hríseyjar.

Ég er bara að svipast um eftir vinstri líkamshelmingi mínum sem ég skildi hérna eftir í fyrravor.” Henni stökk ekki bros á vör. Skömmu síðar útbjuggum við léttan kvöldverð og að honum loknum settumst við út á pallinn með rjúkandi kaffi og önduðum að okkur hlýju sjávarloftinu. Lífið var dásamlegt. Ég var aftur kominn til Hríseyjar.

Ingólfur Margeirsson rithöfundur hefur ritað bók um reynslu sína að fá heilablóðfall fyrir 4 árum. Bókin nefnist “Afmörkuð stund” og er nýlega komin út hjá útgáfufélaginu Skruddu. Bók Ingólfs lýsir hugrenningum höfundarins við þessa reynslu, bæði í í nútíð og þátíð ásamt vangaveltum um framtíðina. Bókin lýsir vel þeim vanda sem við blasa í nýju lífi en einnig því broslega sem slíkum umskiptum fylgja.   Bókin er góður félagi öllum þeim sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum í lífinu en einnig hjúkrunarfólki til skilnings um hvað sjúklingar hugsa gjarnan við umtalaðar aðstæður. Afmörkuð stund2 er heiðarleg og opinská frásögn manns sem orðið hefur fyrir heilablóðfalli, neitað að gefast upp en barist til áframhaldandi tilveru og lífsgæða.

Til baka

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur