Í dag 7. apríl voru undirritaðir samningar milli HEILAHEILLA og kvikmyndafyrirtækisins EPOS ehf. um gerð kvikmyndar um heilablóðfallið (slagið). Er þessi kvikmynd ætluð fyrir sjónvarp, samfélagsmiðla o.fl., í því skyni að fræða landsmenn um hvernig hægt er að koma í veg fyrir slag, jafnvel dauða, með því að fræðast um fyrstu einkennin og hafa réttu viðbrögðin við áfallinu. Hafa kvikmyndagerðarmenn og fulltrúar félagsins verið í viðræðum s.l. tvö ár og gert er ráð fyrir að tökur geti hafist á árinu, þar sem fjármögnun styrktaraðila hafi gengið vonum framar, undir átaki Markaðsmanna ehf. Það hefur ávallt verið markmið HEILAHEILLAað vinna að velferðar- og hagsmunamálum þeirra er fengið hafa slag (heilablóðfall), hvetja almenning að þekkja fyrstu einkennin og koma í veg fyrir frekari skaða, – jafnvel dauða! Árlega fá u.þ.b. 348 einstaklingar slag í sitt fyrsta sinn hér á landi, – en með almennri þekkingu á fyrstu einkennunum og skjótri íhlutun heilbrigðisyfirvalda, réttri greiningu og meðferð, s.s. með segabrottnámi, er hægt að lámarka þennan fjölda og upplýsa almenning um þær miklu framfarir er hafa orðið á allra síðustu árum í læknisfræðinni og hvaða möguleikar eru á að lágmarka afleiðingar heilablóðfalls með þátttöku almennings.