Sindri Már Finnbogason

Sindri Már greindi frá í Morgunblaðinu í febrúar 2023, „Þetta hef­ur breytt mér gjör­sam­lega. Ég mun aldrei verða eins og ég var fyr­ir rúm­um fjór­um mánuðum,“ seg­ir Sindri Már Finn­boga­son, stofn­andi og aðal­eig­andi miðasölu­fyr­ir­tæk­is­ins Tix.

Sindri hef­ur haldið sér til hlés síðustu mánuði eft­ir að hann fékk heila­blóðfall við kom­una til lands­ins úr vinnu­ferð í Englandi. Hann tel­ur að ástæðan fyr­ir því að hann fékk áfallið sé sú að hann hann hafi unnið of mikið og ekki hlúð nægi­lega vel að sjálf­um sér.

Eins og kom fram í Morg­un­blaðinu á dög­un­um kynnti Tix starf­semi sína á ráðstefn­unni Int­ix í Flórída í Banda­ríkj­un­um á dög­un­um. Fyr­ir­tækið ætl­ar að hasla sér völl þar í landi og óhætt er að segja að það fari vel af stað því viðtök­urn­ar á þess­ari ráðstefnu, sem er með þeim stærstu í miðasölu­geir­an­um, voru frá­bær­ar. Sindri hélt fyr­ir­lest­ur á ráðstefn­unni sem mælt­ist mjög vel fyr­ir en þar greindi hann frá því að hann hefði ný­verið fengið heila­blóðfall og hvatti viðstadda til að for­gangsraða rétt í sínu lífi og hugsa vel um sig. Af fjöl­miðlaum­fjöll­un um ráðstefn­una má ráða að þessi ein­lægni hafi lagst vel í viðstadda.

„Ég og Íris kon­an mín ákváðum að fara til Or­lando á sama tíma og ráðstefn­an var, ein­fald­lega til að kom­ast í frí. Við þurft­um bæði á því að halda. Ég átti upp­haf­lega að halda fyr­ir­lest­ur þarna en vegna heilsu­fars­ins á mér höfðum við ákveðið að ann­ar kæmi í minn stað. Þegar hann svo komst ekki til Banda­ríkj­anna ákvað ég bara að láta slag standa. Við und­ir­bún­ing­inn fann ég að ég gæti ekki staðið þarna í 45 mín­út­ur og talað um fyr­ir­tækið eins og ekk­ert væri að. Ég gat ein­fald­lega ekki farið upp á svið án þess að segja frá minni lífs­reynslu,“ seg­ir Sindri.

16 tíma vinnu­dag­ar fjarri fjöl­skyld­unni

Og það var ná­kvæm­lega það sem hann gerði. Fyr­ir­lest­ur­inn byrjaði á stutt­um inn­gangi um Tix en svo skipti hann um gír og varpaði upp ljós­mynd af sér og pabba sín­um sem lést fyr­ir rúm­um sjö árum, skömmu áður en Tix.is fór fyrst í loftið. Sindri seg­ir við Morg­un­blaðið að hann hafi rakið sína sögu og fyr­ir­tæk­is­ins síðustu ár og greint frá því hversu mikið hann hafi unnið án þess að gera sér grein fyr­ir af­leiðing­un­um. „Ég var van­ur að færa strák­un­um mín­um gjaf­ir þegar ég kom heim úr vinnu­ferðum, sem þeir léku sér með í fimm mín­út­ur en hentu svo frá sér. Í síðustu vinnu­ferðinni tók ég hins veg­ar Legókall með mér og tók mynd­ir af hon­um þar sem ég kom við og sýndi strák­un­um. Þess­ar mynd­ir sýndi ég í fyr­ir­lestr­in­um og fólki fannst þetta greini­lega sniðugt. Sama reynd­ar þegar ég endaði á fjöl­skyldu­mynd sem Íris kon­an mín gaf mér af okk­ur öll­um í hlut­verki Simp­son-fjöl­skyld­unn­ar fyr­ir fram­an sjón­varpið. Auðvitað var Kan­inn hrif­inn af því,“ seg­ir Sindri.

Hann seg­ir að skila­boðin með því að segja sögu sína hafi verið skýr. „Ann­ars veg­ar að það er allt uppi á borðum hjá okk­ur en líka að hvetja fólk til að staldra aðeins við og íhuga hvort það ætti að breyta ein­hverju sjálft. Hvort sem það er í þeim rekstri sem það sinn­ir, ef kerfið er ekki að virka má al­veg skipta um kerfi, en ekki síður í eig­in lífi. Ég get vottað það sjálf­ur að það borg­ar sig ekki að ganga of nærri sér með vinnu. Þegar upp er staðið eru aðrir hlut­ir mik­il­væg­ari.“

Tix var stofnað árið 2014 og náði á skömm­um tíma yf­ir­burðastöðu á miðasölu­markaði hér á landi. Fljót­lega var horft til þess að færa starf­sem­ina út fyr­ir land­stein­ana og náði Tix fót­festu í Nor­egi, Dan­mörku, Fær­eyj­um og Svíþjóð en síðar í Hollandi, Belg­íu, Finn­landi og Bretlandi. Fyr­ir tveim­ur árum voru starfs­menn Tix 12 tals­ins en nú eru þeir 38 í átta lönd­um.

Útrás­in tók sinn toll hjá Sindra sem dvaldi lang­tím­um sam­an í út­lönd­um, gjarn­an einn á hót­el­um og fjarri fjöl­skyldu sinni. Árið 2019 fór hann í yfir hundrað flug­ferðir og 2020 eyddi hann um 60 dög­um í sótt­kví vegna flug­ferða. „Þegar ég var bú­inn að koma öllu af stað á Norður­lönd­un­um kom ég heim og þurfti að fara að tak­ast á við dag­legu rútín­una meðfram vinn­unni og það reynd­ist mér mjög erfitt. Ég fór því að leita að nýj­um tæki­fær­um og þau voru fyr­ir hendi í Hollandi. Í fyrra var ég fyrstu fjóra mánuði árs­ins í Hollandi að koma öllu af stað þar. Þá vann ég bók­staf­lega 16 tíma á dag að jafnaði, var kannski helm­ing tím­ans á Zoom-fund­um en hinn helm­ing­inn að sinna for­rit­un og ýmsu öðru í starf­semi Tix. Þegar ég kom svo heim eft­ir þessa törn hélt ég áfram að vinna svona mikið. En þar sem ég þurfti að sinna fjöl­skyld­unni fann ég bara ann­an tíma til að vinna, annaðhvort fram á nótt þegar allt var komið í ró eða eldsnemma á morgn­ana. Á end­an­um sá ég að ég þyrfti auðvitað að dreifa ábyrgðinni á fleiri en það reynd­ist mér samt erfitt að sleppa tak­inu.“

Fékk heila­blóðfall í Leifs­stöð

Síðasta haust var komið að land­vinn­ing­um í Bretlandi og einn­ar næt­ur vinnu­ferð í lok sept­em­ber reynd­ist ör­laga­rík. Sindri flaug út að morgni 29. sept­em­ber og eft­ir fund­ar­höld og fleira flaug hann aft­ur til Íslands frá Heathrow-flug­velli dag­inn eft­ir. „Ég man að ég var al­veg bú­inn á því á flug­vell­in­um. Ég talaði við Írisi og hún greini­lega skynjaði það og benti mér á að þetta væri ekki skyn­sam­legt. Dag­inn eft­ir var sjö ára af­mæli Tix og við ætluðum að fagna því með starfs­fólk­inu,“ seg­ir Sindri sem kveðst hafa liðið ágæt­lega þegar vél­in lenti á Íslandi. Áfallið hafi aft­ur á móti riðið yfir þegar hann gekk frá borði. Í ran­an­um frá vél­inni fann hann ær­andi hávaða í höfðinu og þurfti að stoppa og ná átt­um. Hann náði að kom­ast inn í flug­stöðvar­bygg­ing­una og þar komst meiri ró yfir hann. „Svo tókst mér ein­hvern veg­inn að kom­ast í gegn­um vega­bréfa­skoðun­ina. Starfs­fólkið hlýt­ur að hafa haldið að ég væri drukk­inn. Þegar ég kom niður stig­ann að frí­höfn­inni fann ég að ég væri ekki í neinu ástandi til að fara að keyra og gat á end­an­um gengið að toll­verði og beðið um aðstoð. Hún sá greini­lega að það var eitt­hvað mikið að og kallaði eft­ir lækn­is­hjálp,“ seg­ir Sindri. Hann var flutt­ur á sjúkra­húsið í Kefla­vík og þaðan á bráðamót­töku Land­spít­al­ans. Dag­inn eft­ir komu svo í ljós blett­ir í heila og Sindra var tjáð að hann hefði fengið heila­blóðfall.

Hef­ur ekki náð full­um styrk og minnið í ólagi

Við tók dvöl á spít­al­an­um og í kjöl­farið end­ur­hæf­ing á Grens­ás­deild, sem lauk um ára­mót­in. Síðan þá hef­ur Sindri stundað lík­ams­rækt sjálf­ur og vinn­ur nú að því að ná full­um styrk. Hann býst ekki við því að allt verði eins og það var áður en er bjart­sýnn á framtíðina.

„Minnið mitt er ekki í lagi og ég er enn sem komið er ekki í neinu ástandi til að vinna. Ég tek einn og einn fund til að heyra hvernig gangi en er ekki nærri því bú­inn að ná þeim styrk sem til þarf. Ég átti ein­mitt fund með ein­um Banda­ríkja­manni um dag­inn sem fékk sjálf­ur heila­blóðfall. Hann talaði alltaf um líf sitt fyr­ir og eft­ir heila­blóðfallið og ég býst við að þannig verði það líka hjá mér. Ég hef aldrei fengið skýr­ing­ar á því af hverju ég fékk heila­blóðfall en ég er sann­færður um að það hafi verið út af álagi. Ég vann gjör­sam­lega yfir mig en áttaði mig eng­an veg­inn á því. Á þess­ari ráðstefnu í Or­lando sá ég það skýrt að við get­um farið inn á Banda­ríkja­markað og náð góðum ár­angri þar. Viðbrögðin voru þannig að það fer ekki á milli mála. En ég sá líka að ég þarf ekki að gera það sjálf­ur. Ég þarf bara að sætta mig við að það er ekk­ert að því að fela öðrum verk­efn­in þó ég taki líka þátt eða fylg­ist með. Þegar upp er staðið er fjöl­skyld­an mín það mik­il­væg­asta í mínu lífi og ég ætla að vera viss um að vera til staðar fyr­ir hana hér eft­ir.“

Heilaheill notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á heilaheill.is
  • CookieConsent

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur