Ný stjórn horfir fram á veginn, – að vinna gegn fjölgun heilablóðfalla! Aðalfundur HEILAHEILLA fór fram í húsakynnum félagsins laugardaginn 24. febrúar 2024 í Sigtúni 42, 105 Reykjavík, með nettengingu í sal Einingar-Iðju Skipagötu 14, 600 Akureyri. Þórir Steingrímsson, fráfarandi formaður setti fundinn og stakk upp á Pétri Bjarnasyni sem fundarstjóra og Sædísi Þórðardóttur, sem fundarritara, er samþykkt var samhljóða. Tók Pétur við fundarstjórn og gengið var til auglýstrar dagskrár. Gaf fráfarandi formaður skýrslu um stöðu félagsins og Páll Árdal, fráfarandi gjaldkeri, gerð grein fyrir reikningunum. Voru þeir samþykktir samhljóða og gengið var svo til stjórnarkjörs, formaðurinn til þriggja ára, meðstjórnendur og varamenn til tveggja ára. Þórir Steingrímsson var endurkjörinn formaður og í meðstjórn Páll Árdal og Sædís Björk Þórðardóttir. Í varastjórn þau Kristín Árdal og Gísli Geirsson. Þeir Þór Sigurðsson og Baldur Benedikt Ermenrekur Kristjánsson voru kjörnir skoðunarmenn reikninga. Að lokum þakkaði kjörinn formaður fundarmönnum traustið, bauð nýkjörna stjórn velkomna og þakkaði fráfarandi stjórn samstarfið.